top of page

Askur



Fornt matarílát innblástur að nýrri vöru

Askurinn er meistaraverkefni mitt í hönnun við LHÍ. Námið snerist um umbreytingu, sjálfbærni og umhverfisvitund. Verkefnið fjallar um viðbrögð við fjöldaframleiðslu á mat og einnota umbúðum. Askurinn er matarílát sem tengir saman staðbundna fæðu og ferðalög. Gert er ráð fyrir að hægt sé að ferðast og kaupa mat beint í askinn. Hvort tveggja form og notagildi gamla asksins heillaði mig. Askurinn var afar vel hannaður á sínum tíma en hann varð til upp úr mikilli neyð og fátækt. Í askinum voru tvö hólf, lok og bumba, eitt fyrir blautmatinn og annað fyrir þurrmat. Fólk gat setið með hann í kjöltu sér og matast. Það var fallegt hvernig hver og einn bar ábyrgð á sínum aski og allir áttu sinn sérmerkta ask. Fólk fékk matinn sinn í hann, borðaði eins og það vildi og lokaði honum svo. Eins er það með ferðamanninn, hann getur áð og þarf ekki endilega að klára nestið. Hann heldur svo áfram á annan stað, á leiðinni er kannski verið að selja tómata og þá er þeim bætt í askinn.

Ég hef kynnt mér hvað er að gerast í þróun á svæðisbundinni matargerð á Íslandi. Verkefnið snýst ekki bara um ílátið, heldur stærri hugmyndafræði. Ég sé fyrir mér að það gæti þróast út í vef eða app þar sem fólk gæti séð hvar næsti staður er þar sem hægt er að kaupa fæðu beint í askinn. Ég er í viðræðum við handverksmenn um hvort hægt sé að framleiða askinn úr tré. Ég bjó til nokkur eintök í þrívíddarprentun, sem er sniðug tækni til að búa hlutinn til og prufukeyra hugmyndina. Ég sé það samt ekki fyrir mér sem framleiðsluaðferð fyrir vöruna. Sjálf er ég mikil útivistarkona og ólst upp við ferðalög. Ég prufukeyrði askinn sumarið 2015 og hann virkaði vel. Göngumanneskjan, hönnuðurinn og hinn sjálfbæri lífsstíll sameinaðist í þessu verkefni. Í raun sé ég engan endapunkt á ferlinu, miklu fremur net sem gæti stækkað, þar sem fólk getur lagt til málanna og átt samtal um hvernig er að nota askinn.







Comments


bottom of page